Um Dead
Jón Sæmundur listamaður, einnig þekktur sem Nonni Dead, kom fyrst fram með Dead merkið sitt árið 2003. Hauskúpa umkringd möntrunni ,,He who fears death cannot enjoy life" leit dagsins ljós undir merkjum Dead, listkonsepti sem var útkoma margra ára baráttu við HIV vírusinn en Nonni greindist árið 1994. Í fyrstu var Nonna einungis gefin örfá ár og þurfti hann að horfast í augu við dauðann og þar af leiðandi líf sitt um leið. Dead merkið var skapað til að finna farveg fyrir erfiðar tilfinningar tengdar því að standa andspænis dauðanum; hræðast hann ekki heldur taka honum sem eðlilegum hluta af lífinu og njóta lífsins og lifa því til fulls. Með Dead merkinu og með því að gera kúpuna sýnilega vildi hann vekja fólk til umhugsunar um dauðann og lífið, kúpan var því orðinn að nokkurskonar góðkynja hugarvírus.
Nonnabúð var opnuð árið 2003 á Smiðjustíg og þar seldi Nonni undir merkjum Dead silkiprentaða boli, jakka og ullarhúfur ásamt allskyns öðrum listvarningi. Stuttu síðar færðist búðin yfir á Klapparstíg og seldi þá einungis Dead vörur og hönnun. Það má segja að þá hafi orðið sprenging í eftirspurn eftir Dead bolum og áprentuðum jökkum og sást kúpan góða víðsvegar um bæinn og raunar út um allan heim.
Dead hefur svo í gegnum árin greinst í hinar ýmsu áttir og sköpunargleði Nonna og hugmyndaauðgi hans á sér fá takmörk. Myndlist, silkiprent, fatahönnun, tónlist, gjörningar og myndbandalist er meðal þess helsta sem út hefur komið undir merkjum Dead og Nonni heldur ótrauður áfram, lífið er listin og listin er lífið.
Takk kærlega frá hjartanu til ALLRA sem í gegnum tíðina hafa keypt Dead vörur! Við erum ykkur óendanlega þakklát.
Það er galdur í hverjum bol, í hverjum hlut, í hverri mynd og við vonum að þið finnið það líka, það er fyrir ykkur.